
Ómissandi fólk
"Allsnakinn kemurðu í heiminn
og allsnakinn ferðu burt
frá þessum dauðu hlutum
sem þér fannst þú hafa dregið á þurrt"
segir í ljóði Magnúsar Eiríkssonar, Ómissandi fólk.
Við stígum fyrstu skrefin, lærum fyrstu orðin, lærum að elska og lærum að þakka fyrir.
Samspil erfða og umhverfis mótar okkur og gerir okkur að þeirri manneskju sem við endum á að verða. Mennskjunni sem við eigum að vera.
Einhversstaðar á lífsleiðinni komumst við í tæri við það að stíga vitlaus skref. Á einhverjum tímapunkti segjum við ekki rétt orð. Við förum að halda að hatur sér réttlát tilfinning og að biðjast afsökunar er allt of fjarri okkur.
Það er allt í lagi. En að staldra ekki við og minna okkur á grunngildi lífsins er ekki allt í lagi.
Milli þess sem við komum í heiminn og förum svo aftur hegjum við margskonar baráttur og allskonar stríð. Við öll. Það er enginn sem sleppur algjörlega óskaddaður héðan.
Að læra að velja barátturnar rétt er mikilvægur lærdómur. Sumar höfum við ekki val um og neyðumst til að taka þeim með æðruleysi og dug. Og það við gerum.
Aðrar höfum við val um. Við þurfum að velja þær sem gefa okkur meira en þær taka af okkur. Við þurfum að velja þær sem skila okkur frá sér sem aðeins betri í dag en í gær, og læra að hafna þeim baráttum sem taka það mikið af okkur að brot úr hjartanu fer með. Látum barátturnar aldrei ræna úr okkur hjörtunum. Það eru þær baráttur sem skekja heiminn og taka miklu meira frá honum en hann fær til baka.
Það er ekkert jafn kvenlegt og karlmannlegt að geta fyrirgefið og beðist afsökunar. Mörgum skortir þetta bæði að einhverju leiti, en innst inni geta þetta allir. Og það er aldrei of seint að reyna. Ótalmargar baráttur hefðu dáið strax í fæðingu ef þeir sem að þeim komu hefðu kunnað að nota afsökunarbeiðni og fyrirgefningu sem vopn.
Allsnakin komum við í heiminn og allsnakin förum við burt. Látum skrefin telja, notum orðin vel, þökkum fyrir okkur, biðjumst afsökunar og fyrirgefum. Elskum mikið og deilum því með öðrum. Við erum nefnilega öll ómissandi fólk.
"Ofmetnastu ekki
af lífsins móðurmjólk.
Í kirkjugörðum heimsins
hvílir ómissandi fólk."
