JÓNDÍS HINRIKSDÓTTIR

hugleiðingar ungrar konu um lífið og tísku í máli og myndum ásamt nóg af kaffi og æðruleysi til að takast á við hinar ýmsu brekkur sem lífið hefur upp á að bjóða

DSC00125.jpg
 
 

litla æðrulausa Jóndís

Ég hugsa oft til litlu æðrulausu 8 ára Jóndísar. Hún kenndi mér svo ótal margt og heldur áfram að kenna mér hitt og þetta um lífið. Nýjasti sigurinn hennar er sigurinn á vinnusýkinni í mér og þrjáhyggjunni fyrir því að standa mig.


Fyrir þá sem ekki vita þá er ég með hina ýmsu sjúkdóma sem er nú alveg full vinna útaf fyrir sig. Greinist með fyrsta sjúkóminn minn, liðagigt, 8 ára. Seinna greinist ég einnig með fjölvöðvagigt, vefjagigt, mígreni og hjartalokugalla - svo eitthvað sé nefnt. Jújú sumir safna frímerkjum, en aðrir öðru.


Litla æðrulausa Jóndís var viss um það að Guð hefði gefið henni þessi verkefni því hann treysti henni fyrir þeim, og í staðinn væri eitthvað barn þarna úti sem við þau slapp. Hún leit á erfiðin sem verkefni og tók öllum þeim fordómum sem hinn og þessi hafði um ósýnilega sjúkdóma sem verkefni útaf fyrir sig. Þessir fordómar virkjuðu þráhyggju í mér, þráhyggjuna fyrir því að standa mig og sýna statt og stöðugt hvað ég er, hvað ég get.


Ég hef verið að vinna síðan ég fór fyrst inn á vinnumarkaðinn 14 ára gömul. Vann öll sumur og með skóla á veturnar. Ég taldi sjálfri mér trú um það að ég virkaði bara best þegar ég hefði nóg að gera. Fannst ekkert mál að vinna alltaf með framhaldsskóla og hélt ég færi létt með það að vera í fullri vinnu með háskólanámi. Það sem ég var þó ekki búin að átta mig á var að ástæðan fyrir því að ég vildi alltaf hafa nóg að gera var vegna þess að þá hafði ég bara ekki tíma til þess að finna til. Á einhvern hátt tókst mér að setja alla verki og alla þreytu á einhvers konar bið á meðan ég kláraði það sem ég þurfti að klára. Skilaði af mér því sem ég þurfti af mér að skila og vinna það sem ég þurfti að vinna. Það er töluvert auðveldara að vera í vinnu hjá öðrum en að vinna í sjálfum sér, að vinna í því sem raunverulega þarf að vinna í.


Það hafa mörg og misjöfn áföll fléttast inn í líf mitt síðustu ár. Og áföll eru þannig að ef það er ekki unnið úr þeim þá leggjast þau í dvala innra með þér, fá þar vettvang til að stækka og breiða úr sér og blossa svo upp þegar þú síst átt von á þeim og yfirleitt þegar þú hefur engan tíma fyrir þau. En þau spyrja hvorki um tíma né stað, svo illkvittin eru þau.


Síðasta vetur hafði ég nú nóg að gera, bæði í fullri vinnu og fullu háskólanámi, en fann að bensínið var hægt og rólega að klárast. Þessi áföll öll sem ég geymdi þarna einhversstaðar ákváðu einnig að klifra upp og reyna að komast út. Ég hlustaði þó hvorki á líkama né sál og beit einfaldlega bara á jaxlinn. Ég hvarf þó sjálf hægt og rólega líka. Því minna sem eftir var af bensíninu, því minna var eftir af mér. Líkamlegir og andlegir verkir ásamt líkamlegri og andlegri þreytu voru algjörlega að éta mig, éta mig upp til agna. Um mitt árið var ekkert eftir af mér, persónuleikinn minn fallegi var algjörlega horfinn, sálin einfaldlega farin og ekkert eftir nema bein og skinn, sem mér fannst helst eiga heima í fallegri kistu í heilagri mold undir grænu grasi. Ég virkilega trúði því að mín saga væri búin.


Tveggja vikna lega inni á geðdeild varð til þess að ég fann viljann til að halda áfram að skrifa mína sögu. Þangað fór ég sjálfviljug og opnaði faðm minn fyrir þeirri hjálp sem mér bauðst. Ég fann að ég var þarna ennþá, einhversstaðar, og sagði sjálfri mér að ég myndi taka við þeim spilum sem fagfólkið og mínir nánustu voru tilbúnir að rétta mér og nota þau skynsamlega. Litla æðrulausa Jóndís.


Ég var þó ekki tilbúin að hætta að vinna og hélt mínu striki yfir sumarið. Þráhyggjan yfir því að standa mig var ennþá til staðar. Haustið kom og ég ákvað að halda áfram að vinna en geyma námið. Ég fann þó rökkrið hellast yfir mig aftur og fann lyktina af staðnum sem ég var á í vor. Litla æðrulausa Jóndís minnti mig á að spilin ætlaði ég að nota skynsamlega og með hjálp hennar komst ég á þann stað að ég varð tilbúin að leggjast í fulla sjálfsvinnu og hvíld.


Þegar þessi orð eru skrifuð er ég búin með fyrsta mánuðinn minn í endurhæfingu og sjálfsást. Hann var langt frá því að vera auðveldur og það er alls ekkert lúxus líf að vera í fríi frá vinnu. Sérstaklega ekki hjá vinnusjúkri konu eins og ég nú er. En ég veit að ég er að fjárfesta í framtíðinni með þessari sjálfsvinnu og sé fyrir mér að ég geti farið að leysa Súperman af fljótlega. Svo sterk mun ég verða og mun gera litlu æðrulausu Jóndísi svo agalega stolta.


Ég er ein af mjög mörgum sem algjörlega vinna yfir sig. Við Íslendingar erum öll því miður alin upp við það að vinna og vinna og vinna. Það eiga allir að vera alltaf á fullu og væntingarnar sem við setjum á okkur sjálf eru oft á tíðum glórulausar. Nútíminn er gegnsær og allir að fylgjast með öllum. Við þurfum öll í sameiningu að muna að við komumst aldrei þangað sem við ætlum að komast nema passa upp á okkur, fara vel með okkur og elska. Elska bæði sjálfan sig, fólkið sitt og lífið í heild sinni. Við upplifum lífið ekki nema lifandi og að vera lifandi og á lífi er ekki það sama. Verum þakklát fyrir að vera á lífi og lifum lífinu því lifandi. Það er langt frá því að vera sjálfsagt.


Hugum svo af og til af náunganum, eitt bros getur dimmu í dagsljós breytt. Munum.


xo

jóndís

0 comments

Recent Posts

See All
 

"Þótt að þér sé þrengt frá öllum hliðum skaltu skarta þinni tign meðan stætt er"

Hinrik Már Jónsson